Bodegas Altanza

Það þykir ávallt til tíðinda þegar vínframleiðandi hreppir Platínuverðlaun á verðlaunahátíðum Decanter-samtakanna, og ekki spillir gleðinni ef umræddur framleiðandi er sá eini frá sínu svæði í það skiptið. Slíkt gerðist einmitt á DAWA (Decanter Asia Wine Awards) verðlaununum á síðasta ári þegar rauðvínið Lealtanza Reserva 2012 frá Bodegas Altanza hreppti Platínuverðlaunin, með heila 97 af 100 í einkunn – eina vínið frá Rioja til að hljóta þann heiður á hátíðinni. Það kann að koma einhverjum á óvart, einkum í ljósi hins magnaða árangurs að hreppa Platínuverðlaunin hjá DAWA, að Bodegas Altanza er ekki ævagömul víngerð með árhundruða sögu sem hefur verið stjórnað af sömu ættinni, kynslóð fram af kynslóð. Slíkt er ekki óalgengt hjá fremstu og bestu víngerðum víða um heim enda alltaf traustvekjandi að sjá að fjölskyldu standa vörð um hefðina. Þegar uppi er staðið eru það þó vitaskuld gæði vínsins sem skera úr um hvort víngerð er einhvers virði og þarna er rétt að staldra við og skoða Altanza aðeins nánar. Sem fyrr segir er hér ekki um gamalt fyrirtæki að ræða heldur hóf það starfsemi sína fyrir rétt rúmum tuttugu árum, árið 1998. Aðalstöðvarnar og víðfeðmar vínekrurnar er að finna við syðri bæjarmörk smábæjarins Fuenmayor sem liggur sunnan við mörkin þar sem Rioja mætir Baskalandi. Í upphafi var markmiðið hjá hinum nýju víngerðarmönnum í senn hófstillt en metnaðargjarnt. Verklýsingin kvað aðeins á um gerð rauðvíns úr Tempranillo-þrúgunni (semsé engar Garnacha, Mazuelo eða Graciano þrúgur, sem einnig er að finna í Rioja) og vínin skyldu vera í Reserva flokki en það merkir að vínir hefur fengið að þroskast í minnst 36 mánuði samtals á eik og á flösku, og þar af verður vínið að þroskast á eikarámunum í minnst 12 mánuði. Leiðarljósið var vönduð og aðgengileg vín á sanngjörnu verði. Hvergi hefur verið hvikað frá þessu stefnumiði og gott dæmi um það er vínið sem þessi umfjöllun hófst á; hið Platínuverðlaunaða Lealtanza Reserva.