The Glenrothes

Ef eitthvert landsvæði í veröldinni má kallast heimili öndvegisviskía þá er erfitt að ganga framhjá svæðinu þar sem áin Spey rennur í gegnum skosku hálöndin.  Þar er hver framúrskarandi viskígerðin á fætur annarri og The Glenrothes er þeirra á meðal. Viskíið þeirra er sérstætt meðal annarra skoskra viskía að því leytinu til að það er almennt ekki sett á flöskur þegar fyrirfram ákveðnum tíma er náð, til dæmis 12 árum eins og algengt er með viskí, heldur er hver árgangur látinn þroskast þangað til hæfilegum gæðum er náð. Viskíð er svo sett á flöskur sem árgangavískí, án þess að tiltekin árafjöldi sé nefndur.

Viskíið frá The Glenrothes er víða í uppáhaldi meðal unnenda góðs skota, enda bragðið í grunninn hreint ljúffengt, með ómótstæðilegum ávaxtatónum sem verða til við langan geymslutíma á sérrítunnum frá Spáni. Það blés þó ekki byrlega fyrir þessa fræga viskíhúsi í árdaga því minnstu munaði að ekkert yrði úr stofnun þess. Ástæðan var fyrirbæri sem er Íslendingum að ekki óþekkt, nefnilega bankahrun. Nánar tiltekið höfðu nokkrir framtakssamir kaupsýslumenn tekið sig saman um stofnun og rekstur viskígerðar en fall Glasgow-banka 1878 varð þess valdandi að peningar voru skyndilega ekki á lausu til þess að láta drauminn rætast. Það gekk þó í gegnum samskot og samstöðu íbúanna í bænum Rothes og framleiðslan hófst ári síðar.