Château Tour Baladoz

Víngerðin Château Tour Baladoz framleiðir vín sem eru eftirsótt meðal mat- og víngæðinga og kemur þar ýmislegt til; hún á sér langa og merka sögu, ræktunarlandið er í sérflokki þegar kemur að ræktun og framleiðslu víns, og loks er framleiðsluferlið – allt frá ræktun til átöppunar – samkvæmt ströngustu gæðakröfum.

Staðsetningin er í raun alveg einstök, en Château Tour Baladoz situr á efsta punkti hins nafntogaða Saint-Émilion svæðis austur af Bordeaux, og þaðan geta gestir virt fyrir sér stórfenglegt útsýni í allar áttir, þar sem sjá má víðáttumiklar vínekrur, ævaforna steinhleðsluveggi og aflíðandi hæðir. Vínekra Château Tour Baladoz er um 5 hektarar og vex öll ofan á leir- og kalksteinsjarðvegi. Hún gefur af sér einkar bragðmikið, flauelsmjúkt og fágað vín með mikilli fyllingu – vín sem ber öll einkenni alvöru “grand premier cru”. Árleg framleiðsla er í kringum 20 þúsund flöskur.

Jarðvegurinn kringum Château Tour Baladoz hentar framúrskarandi vel til ræktunar á Merlot-þrúgunni og því er það svo að um 70% vínekrunnar er undirlagt af einmitt þeirri þrúgu. 20% eru Cabernet Franc og 10% Cabernet Sauvignon. Sagan sýnir glöggt, þegar mið er tekið af vínunum frá Château Tour Baladoz að þessi hlutföll henta þessum jarðvegi sérstaklega vel.