Þar sem vínviður og hafgola mætast. Þar sem hæðirnar mæta dalnum. Þar sem yfirvegun og gott handverk koma saman. Þetta er Carmel Road-víngerðarhúsið.

Þótt Carmel Road-víngerðarhúsið sé staðsett í nokkurri fjarlægð frá klettóttri strandlengjunni við Monterey nýtur þar engu að síður stöðugra áhrifa frá hafinu. Carmel Road framleiðir lífleg Chardonnay-, Pinot Noir- og Riesling-vín sem fanga kjarna þessa einstaka landsvæðis. Hér áður fyrr var loftslagið í Monterey talið vera of kalt fyrir vínekrur en nú er héraðið eitt helsta ræktarsvæðið í Kaliforníu. Fyrsti árgangur vína frá Carmel Road kom á markað árið 1999.

Sjálfbærni

Í þessu víngerðarhúsi í Monterey er markmiðið að framleiða einstök vín í köldu loftslagi og hafa auk þess sjálfbærni að leiðarljósi.

Hvers vegna?

Vegna þess að okkur er annt um velsæld fólksins, okkar einstaka samfélags og jarðarinnar. Þessar áherslur okkar tryggja neytendum okkar auk þess vandaðri vín. Vínekrurnar okkar hafa hlotið SIP-sjálfbærnivottun (Sustainability in Practice) og CCSW-sjálfbærnivottun (Certified California Sustainable Winegrowing) og þannig hafa utanaðkomandi aðilar staðfest þessar áherslur okkar og að við sinnum á þeim stöðugum endurbótum.

Við trúum því að framleiðsla hágæða vína og varðveisla þessa einstaka landsvæðis – allt frá dýpsta og kaldasta flóanum í vínræktarlandi Kaliforníu til líffræðilegrar fjölbreytninnar í Monterey-héraði – séu nátengd markmið. Í nágrenni við vínekrurnar okkar eiga bæði vinir okkar og fjölskyldur landsvæði, en þar eru líka bændurnir sem rækta matinn sem við neytum á hverjum degi – þess vegna eru umhverfisverndaráherslur okkar svona ríkar.

Til að standa við þessar áherslur okkar stundum við stöðuga nýsköpun, hvort sem er úti á vínekrunum eða í víngerðarhúsinu sjálfu. Við gróðursetjum vínviðinn okkar þéttar því það dregur úr bæði vatnsþörf og orkunotkun á vínekrunni og skilar þéttari klösum með vönduðum og þykkum berjum. Vatnsstýring á vínekrunni og í vínkjallaranum, nýting náttúrulegra rándýra til að halda skaðvöldum í skefjum, endursköpun á náttúrulegum vatnsfarvegi til að veita burtu regnvatni – allt þetta og fleira gerum við til að spara orku og vernda landið okkar svo komandi kynslóðir geti notið góðs af.

Enduruppbygging lands: Í stað þess að gróðursetja vínvið í gömlum árfarvegi endursköpuðum við vatnsfarveg og mynduðum þannig náttúrulega leið til að veita burt regnvatni og viðhalda um leið upprunalegu landslagi.

Verndun og gæði vatns: Til að spara vatn og orkuna sem þarf til að dæla því notumst við eingöngu við dreypivökvun. Skolvatn úr tunnum og geymum í víngerðarhúsinu er endurnýtt þrisvar sinnum áður en það er endurunnið og notað til að vökva vínekrurnar. Við vorum á meðal fyrstu víngerðarhúsanna til að nota háþrýstiþvottabúnað til að þvo tunnur og af þeim sökum notum við 45% minna af heitu vatni en áður.

Orkunýtni og endurnýjanleg orka: Frá árinu 2008 höfum við endurbætt víngerðarbúnað okkar til að minnka orkukræfni okkar um nær 15% og í kjölfarið hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í vínframleiðslunni. Til að bæta um betur erum við að byggja í víngerðarhúsinu 840 kW ljósspennukerfi sem knúið er með sólarorku til að draga frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkunotkunar.

Vistkerfisstýring: Opin svæði á milli vínræktarsvæða gera villtum lífverum kleift að hafast við á og umhverfis vínekruna og að komast greiðlega að náttúrulegum auðlindum, t.d. vatni, fæðu og skjóli. Með því að varðveita heimkynni dýranna ýtum við undir líffræðilega fjölbreytni. Við höfum fálkatemjara á okkar snærum til að halda skemmdum vegna nagdýra í lágmarki.

Samþættar varnir gegn skaðvöldum: Við gróðursetjum plöntur til að tryggja skordýrum nærandi umhverfi og bæta vatnsheldni. Með því að fjarlægja lauf lækkum við sjúkdómstíðni og við drögum úr ryki frá vegum til að halda mítlastofnum í skefjum.

Monterey-svæðið og áhrif þess

Sólskin, þoka og forn jarðvegur myndar hina fullkomnu blöndu til að þroska vínber héraðsins á einstakan hátt. Þess má geta að vínber sem eru ræktuð í þessu héraði eru eingöngu ætluð til vínframleiðslu.

Hvað gerir vínberin frá Monterey svona einstök? Það er hvernig hið einkennandi bragð skilar sér í þessari Pinot Noir-þrúgu. Í Monterey er að finna Blue Grand Canyon – Bláa Miklagljúfrið – en það er eitt stærsta neðansjávargljúfur veraldar. Það eru áhrifin frá því, ásamt nálægð Kyrrahafsins, sem gera vínin frá þessu svæði alveg einstök.